Færsluflokkur: Bloggar

Um einelti

Ég hef lengi fylgst með umræðu um einelti. Oftast nær er verið að ræða einelti barna og hvernig megi stemma stigu við því. Ég tel að það sé full ástæða til að fara að beina kastljósinu að fullorðnu fólki í meira mæli þar sem það er, eftir því sem ég best veit, fyrirmyndir barnanna í flestum málum.

Það þarf í rauninni ekki að leita langt eftir þessum töktum hjá fullorðnu fólki og vitað er að fullorðnir leggja hver annan í einelti.  Mér finnst ennþá sárt til þess að vita að ein gömul frænka mín var lögð í einelti á elliheimilinu þar sem hún dvaldi. 

Ekki flokkast allt undir einelti þó ljótt sé.  Eins og ég skil einelti þá þarf að koma til ítrekaðar árásir á einstakling og jafnvel af hálfu fleiri en eins en líka að það ver enginn þann sem fyrir stríðninni verður eða ofbeldinu.

Mér finnst umfjöllun í íslenskum fjölmiðlum og jafnvel á alþingi Íslendinga vera mjög harðskeytt og oft á tíðum ruddaleg.  Það að fréttamennska snúist um ofbeldi og neikvæða hluti virðist einungis færast í aukana. Ein og ein dýrafrétt nær ekki að slá á þá staðreynd þó að vissulega séu þær til bóta.  En samt virðist það vera það eina sem finna má jákvætt í heiminum í dag. 

Ég vil sem sagt hvetja fullorðið fólk til að taka á sínum eigin hegðunarmynstrum sem eru oft á tíðum alls ekki betri en hjá börnum sem leggja hvort annað í einelti.

Svava


Kvenfélög eru þarfaþing

Þegar ég var ung stúlka að alast upp í sveit þá man ég eftir því að mamma var í kvenfélagi. Hún var líka í slysavarnafélagi og þessi tvö félög voru kannski með því allra kellingalegasta sem ég gat hugsað mér á mínum yngri árum.  Enda flutti ég úr sveitinni og hafði ýmsum öðrum hnöppum að hneppa en að huga að því að gerast félagi í svoleiðis félögum.

Svo liðu árin og ég flutti aftur í sveit þar sem ég þekkti engan.  Þá var það kvenfélagið sem kom til bjargar.  Ég gekk í það og voila!... ég kynntist helling af skemmtilegum, "ungum" og hressum konum sem ég hef átt frábært samstarf með og skemmt mér ekki síður með. Enda eru meðlimir í mínu kvenfélagi á öllum aldri.

Ég veit ekki alveg hvort mér finnst ennþá kellingalegt að vera í kvenfélagi. Ég veit hinsvegar að það skiptir mig nákvæmlega engu máli þar sem ég er hamingjusamlega orðin kelling sjálf og þarf því ekki að hafa áhyggjur af því orðspori.  Það sem kannski kom mér svo skemmtilega á óvart við að verða kelling (veit ekki alveg hvenær ég varð það..) er að mér finnst það frábært og svo dásamlega eitthvað frjálslegt.

Kvenfélög eru málið!

bless í bili:-)


Talandi um Eurovision

Öðru vísi mér áður brá.  Þá mátti ég ekki sjá af skjánum þegar hin yndislega keppni Eurovision var sýnd í sjónvarpinu.  Þetta var strax og við vorum farin að geta fylgst með keppninni hérna sem ég hef ekki grænan grun um hvenær var.  Og ef ég man rétt þá jókst áhuginn frekar en hitt þegar við fórum að taka þátt íkeppninni og ekki var verra að hafa þá löggilta ástæðu til að hella ögn uppá sig í leiðinni ef maður var í stuði til þess.

Síðan hefur ýmislegt gerst. Svosem eins og að löndum hefur fjölgað mjög mikið í keppninni, ég hef elst um ein tvö ár eða svo og ég drekk þar að auki ekki eins görótta drykki og ég var vön á þessum tíma sem ég nefndi. Allavega þá er ég eitthvað ekki eins spennt yfir þessu og áður var.

Mér finnst lögin oft annsi keimlík svona til að byrja með a.m.k. og finnst lætin í kringum þetta svolítið yfirdrifin.  Sem þau eru að sjálfsögðu til að mjólka þetta efni sem hvort eð er er verið að leggja peninga í. Mig grunar sterklega að þessi tvö ár sem ég hafi bætt við mig séu samt aðalástæðan. Ég er orðin annsi kellingarleg á margan hátt.  Stend mig að því að tuða rétt eins og að ég heyrði mömmu tuða á sínum tíma.  

Það fyndnasta í þessu er samt að þó svo að ég sé ekki sérstaklega spennt fyrir þessu þá horfi ég oftast nær samt.  Ég gæti annars verið að missa af einhverju.Woundering


Mínar fögru framtíðarhorfur!

Ég lifi gríðarlega spennandi lífi! Ég vakna á morgnana, fer út að labba, tek til í kofanum og sinni síðan tilfallandi hlutum og já... Það er eiginlega málið.  Það kemur fyrir að ég fari af bæ en samt helst ekki ótilneyddGetLost Mig grunar sterklega að innan fárra ára verði ég orðin töluvert skrýtnari en ég er í dag. Hugsanlega farin að klæða mig einkennilega, opna kannski ekki dyrnar ef gesti ber að garði, siga jafnvel hundunum á þá. Geymi matinn kannski í súr og salti og finnst allt sem ekki er íslenskt vera fáránlegt. Ligg svo bara annars uppi í rúmi og les Njálu.  Er þetta annars ekki pottþétt lýsing á skrýtinni manneskju? 

Allt þetta mun ég gera frekar en að taka afstöðu opinberlega til þjóðmála, þar sem mér finnast þau ótrúlega helvíti hundleiðinleg og ég hef ekki nokkra einustu tilfinningu fyrir því að ég hafi  nokkur einustu áhrif á hvernig mál þróast á þeim vettvangi. Mér verður yfirleitt  bara flökurt ef ég hlusta á fréttir.  Finnst þær vera mannskemmandi niðurrifsvæll sem ætti að banna.

Að þessu sögðu þá er ég viss um að þið eruð sammála mér um að ég stefni í þá átt sem ég lýsti hér á undan.Wink

Bless í dag.


Af kanadískum konum og öðrum skepnum

Það er svosem ekki margt að frétta úr sveit sem skekin er af stormi og er við það að drukkna í rigningum.  Reyndar eins og restin af landinu þessa dagana. það er best að láta vera að taka sér einkaleyfi á roki og rigningu.  Ég var hrikalega hress í gær þrátt fyrir veðrið og brokkaði hér fram veg og heim aftur, þ.e. ég fauk heim aftur. En í dag var hressileikinn einhversstaðar í fríi og ég fór vart út fyrir hússins dyr þrátt fyrir þrábeiðni fjórfættra vina minna lengi dags. 

Dóttir mín var samt ekki að láta veðrið aftra sér og kanandískri vinkonu sinni, heldur tóku þær gullna hringinn með stæl og mættu svo hér í kakó og pönnsur að því loknu. Það kalla ég bara vel af sér vikið.

Að fara gullna hringinn í roki og rigningu meina ég en ekki að koma í pönnsur, ég baka góðar pönnsur þannig að það er lítið mál að mæta í þær!

Sú kanandíska var víst bara nokkuð ánægð, fékk að fara hérna út í fjós og heilsa upp á nautin og rollurnar. Hvað þarf maður annað að sjá í Íslandsferð? Gullfoss, Geysir, Þingvellir, nokkrar rollur og örfáir tuddar!

Annars hef ég verið að láta mér leiðast svolítið í dag, þangað til ég fór að leggja grunn að listmálaraferli mínum núna seinni partinn.  Það bjargaði deginum.

Bless í dag.


Ætt út í stormana

Ég hef það fyrir sið að fara í göngutúr, helst á hverjum degi.  Hundarnir eru ekki hressir með mig nema að ég standi þessa plikt.  Ég er reyndar líka töluvert hressari ef að ég fer út og labba.  Það er misjafnt hvað ég geng langt en fer helst ekki styttra en tvo kílómetra.

Í dag dreif ég mig út eftir mikið hvatningarvoff frá hundunum og barðist á móti storminum með göngustafina mína með mér.  Þeir urðu svosem til lítils gagns, voru aðallega í því að fjúka. Samt hafði ég það af að fara fram á mel en þangað er einn kílómeter.  Þar sneri ég heim og bókstaflega fauk heim þar sem að það hafði heldur betur bætt í rokið á leiðinni.

Rosalega var ég stolt kona þegar heim var komið!  Einhverntíman hefði ég bara sagt að þetta væri ekki hægt og verið bara heima. Hundarnir fuku þetta algjörlega alsælir með mér.  Það er alveg ónýtur dagur hjá þeim ef ég fer ekki með þá í göngutúr hvort sem það er stormur eða ekki stormurWink

 


Þarf alltaf allt að fara til Reykjavíkur?

Vont þætti mér að horfa upp á Háskólann á Bifröst leggja upp laupana.  Þar er nú kannski fyrst og fremst um að ræða tilfinningasemi manneskju sem hvort tvegga hefur verið þar í gamla Samvinnuskólanum og síðan í Samvinnuháskólanum sem síðar tók við.  Samt er þetta ekki bara tilfinningasemi.  Það er svo allt allt annað að stunda nám í umhverfi eins og því sem er á Bifröst að flóra  íslenskra skóla væri mun fátæklegri ef Bifröst leggst af. Mér finnst líka algjörlega farið öfugt í hvað eigi að halda eftir á Bifröst og hvað eigi að færa til Reykjavíkur.  Mér hugnast mun betur að reyna að sameina skólann á einhvern hátt öðrum skólum í heimahéraði og halda þessu eistaka samfélagi sem þarna er á lífi áfram.
mbl.is Hugnast betur sameining innan Borgarfjarðar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eru fréttamenn tregir?

Mikið er ég orðin hundleið á fréttamönnum sem virðast ekki skilja mælt mál og tyggja sömu spurninguna aftur og aftur þó að það sé löngu búið að svara þeim.  Mér finnst þetta ekkert flott fréttamennska, bara þreytandi. 

Í þessari frétt virðist fréttamaðurinn ekki ætla að hætta fyrr en hann fær Jón Gnarr til að segja að hann skammist sín svakalega mikið fyrir það sem hann sagði  þó svo að Jón segi strax að hann skammist sín bara ekki neitt.  

Ég spyr nú líka, hvers vegna hann ætti að skammast sín.  Hann var jú að grínast en hinn annað hvort skildi það ekki eða vildi frekar að hann hefði sagt þetta í fullri alvöru af því að það var meira krassandi frétt.  

 

 


mbl.is „Ég er og verð óviðeigandi“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband