30.4.2012 | 16:11
Um einelti
Ég hef lengi fylgst með umræðu um einelti. Oftast nær er verið að ræða einelti barna og hvernig megi stemma stigu við því. Ég tel að það sé full ástæða til að fara að beina kastljósinu að fullorðnu fólki í meira mæli þar sem það er, eftir því sem ég best veit, fyrirmyndir barnanna í flestum málum.
Það þarf í rauninni ekki að leita langt eftir þessum töktum hjá fullorðnu fólki og vitað er að fullorðnir leggja hver annan í einelti. Mér finnst ennþá sárt til þess að vita að ein gömul frænka mín var lögð í einelti á elliheimilinu þar sem hún dvaldi.
Ekki flokkast allt undir einelti þó ljótt sé. Eins og ég skil einelti þá þarf að koma til ítrekaðar árásir á einstakling og jafnvel af hálfu fleiri en eins en líka að það ver enginn þann sem fyrir stríðninni verður eða ofbeldinu.
Mér finnst umfjöllun í íslenskum fjölmiðlum og jafnvel á alþingi Íslendinga vera mjög harðskeytt og oft á tíðum ruddaleg. Það að fréttamennska snúist um ofbeldi og neikvæða hluti virðist einungis færast í aukana. Ein og ein dýrafrétt nær ekki að slá á þá staðreynd þó að vissulega séu þær til bóta. En samt virðist það vera það eina sem finna má jákvætt í heiminum í dag.
Ég vil sem sagt hvetja fullorðið fólk til að taka á sínum eigin hegðunarmynstrum sem eru oft á tíðum alls ekki betri en hjá börnum sem leggja hvort annað í einelti.
Svava
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.